Salat með perum og gráðosti

Pear-Blue-Cheese-SaladÍ vikunni var ég svo lánsöm að fá matarboð frá Önnu Eyvöru og Eyþóri manninum hennar. Þau elda besta fisk í heimi en það er svona matur sem ekki er til uppskrift að, fiskurinn þeirra kemur bara frá hjartanu. Með smjörsteiktu þorskhnökkunum báru þau svo fram salat með perum og gráðosti en þetta salat hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér.

Salatið er bragðmikið, gott eitt sér en líka með fiski eða kjúklingi. Það skemmir alls ekki fyrir að drekka kalt hvítvín með.

Salat með perum og gráðosti

  • blandað salat að vild
  • 2-3 perur
  • hálfur gráðostur (eða meira eftir smekk). Það má líka nota hvítmygluost ef ykkur finnst mildara bragð betra.
  • pecan hnetur (ef ykkur líkar þær, má líka sleppa)

Setjið salatið í skál. Skerið perurnar í teninga og dreifið yfir salatið. Myljið gráðostinn og hneturnar og dreifið yfir. Lagið salatsósuna.

Salatsósa

  • 3-4 msk ólívuolía
  • 2-3 msk hvítvínsedik
  • 2 tsk hunang
  • örlítið salt

Hrærið öllum efnunum mjög vel saman og hellið yfir salatið áður en það er borið fram.

Auglýsingar