Ég var nýbúin að eignast nautakjöt beint frá bónda þegar meistarakokkurinn Hrefna Sætran birti uppskrift að sesamnautaspjótum í Fréttablaðinu. Þetta er gómsætur réttur! Hrefna eldar nautalundir en ég notaði gúllas í staðinn því það voru bitarnir sem ég átti til. Í fyrstu tilraun varð kjötið of salt hjá mér og þegar ég sá Hrefnu elda réttinn í sjónvarpsþætti fékk ég skýringuna: það á alls ekki að láta sojasósuna sjóða, bara hitna, því annars verður hún mjög sölt.
Sesamnaut á spjóti
- grillpinnar, ef þú notar trépinna skaltu láta þá liggja í bleyti í 40 mínútur
- 600 gr nautalund (eða gúllas, eða aðrir nautakjötsbitar)
- 100 ml sojasósa
- 60 gr sykur
- 4 msk sesamfræ
- 20 ml sesamolía
- Olía til að pensla kjötið
- Salt
- Pipar
Skerið kjötið í bita (ef þarf).
Setjið sojasósu og sykur í pott og hitið þar til sykurinn bráðnar – ekki sjóða, bara hita! Hellið í skál og bætið sesamfræjunum og sesamolíunni út í. Marinerið kjötið í eina klukkustund. Penslið með olíu og kryddið með salti og pipar. Þræðið á spjót og grillið á heitu grilli í 2 mínútur á hvorri hlið.
Þessir kjötbitar eru góðir með bökuðum kartöflum og grænu salati. Eða sem smáréttur í partýið.