Í kvöld fann ég uppskrift að einföldum fiskrétti eftir Nönnu Rögnvaldardóttur inni á vefnum Gott í matinn. Venjulega vantar mig eitthvað sem á að vera í uppskriftum sem ég finn á vefnum en í þetta sinn var ofgnótt í Binnubúri og mig langaði til að bæta í. Ég held að það hafi verið til bóta því með hvítlauk og sveppum varð fisk baksturinn sérlega bragðmikill. Þetta er einfalt og gott og passar mjög vel á mánudagskvöldi.
Ofnbakaður fiskur með grænmeti
- 700-800 gr ýsa eða annar fiskur úr frystinum, skorinn í bita
- salt og pipar
- olía
- 1/2 laukur eða rauðlaukur, saxaður
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- 1/2 kúrbítur, skorinn í teninga
- 1/2 box af sveppum, sneiddir
- 1/2 – 1 paprika, skorin í teninga
- 6-10 kirsuberjatómatar (eða aðrir litlir tómatar), skornir í helminga
- 12 ólívur
- 3-4 msk rjómi
- 150 gr rifinn ostur
Hitið ofninni í 200°C.
Smyrjið eldfast mót með olíu og leggið fiskbita ofan í það, saltið og piprið.
Setjið olíu á pönnu og látið hvítlauk og lauk krauma í henni í nokkrar mínútur. Bætið öllu grænmetinu nema ólívunum út í og steikið í stutta stund eða þar til mjúkt að innan. Hellið grænmetinu yfir fiskinn í eldfasta mótinu. Hellið rjómanum yfir, stráið ostinum yfir og leggið síðan ólívurnar ofan á. Bakið í ofninum í 20 mínútur. Berið fram með hrísgrjónum og ísköldu vatni.