Nú er ég loksins að komast í sumarleyfis stemningu, það tók ansi langan tíma þetta árið. Í dag notuðum við strákarnir frítímann til að baka snúða. Deigið var þríhnoðað því allir urðu að fá að taka þátt. Það er gott fyrir gerdeig að hnoða það vel því þannig er líklegra að gerinn vinni vel og brauðið verði mjúkt og gott. Við notuðum uppskriftina að smábrauðum Sollu stirðu, það er uppskrift sem bregst aldrei. Svo fylltum við eina lengju með kanilsykri og marsípan og aðra með sykri, salthnetum og súkkulaðirúsínum sem fundust uppi í skáp. Það voru svo snúðar í kvöldmatinn.
Sumarleyfis snúðar
Deigið
- 2 dl vatn, 37°C
- 1/2 dl matarolía
- 1 msk þurrger
- 1 tsk salt
- 1 tsk sykur
- 300 gr hveiti (eða 200 gr hveiti og 100 gr heilhveiti)
Hrærið saman vatni, matarolíu, þurrgeri, salt og sykri í stórri skál. Hrærið hveitið smátt og smátt út í og hnoðið deigið þegar allt hveitið er komið út í skálina. Látið deigið standa á hlýjum stað í 1 klst.
Hitið ofninn í 180°C.
Fletjið út deigið með kökukefli. Setjið fyllingu ofan á, rúllið upp og skeruð lengjuna í 2cm búta. Raðið snúðunum á plötu og bakið í 15 mínútur eða þar til snúðarnir eru gullnir.
Fylling 1 – dugar á eina útflatta uppskrift af smábrauði Sollu stirðu
- 1/2 bolli brætt smjör
- 1/2 bolli kanilsykur
- 300 gr marsípan
Smyrjið smjörið yfir útflatt deigið. Stráið sykrinum jafnt yfir. Rífið marsípanið niður og dreifið yfir allt deigið. Rúllið deiginu upp og skerið í 2 cm búta, raðið snúðunum á plötu og bakið í 15 mínútur eða þar til snúðarnir eru gullnir.
Fylling 2 – dugar á eina útflatta uppskrift af smábrauði Sollu stirðu
- 1/2 bolli brætt smjör
- 4 msk strásykur eða perlusykur
- 1 bolli salthnetur
- 1 bolli súkkulaðirúsínur
- marsípan (ef það er til)
Smyrjið smjörið yfir útflatt deigið. Stráði sykrinum jafnt yfir. Rífið marsípanið niður og dreifið yfir allt deigið. Dreifið rúsinúm og hnetum yfir allt. Rúllið deiginu upp og skerið í 2 cm búta, raðið snúðunum á plötu og bakið í 15 mínútur eða þar til snúðarnir eru gullnir.