Bagette

Sólon sonur minn er í heimilisfræðivali hjá Guðbjörgu Rúnu í FS. Hann hefur verið mjög ánægður með vinnuna hjá henni og komið heim með ljúffengt brauðmeti. Langlokuna sína kláraði hann samt sjálfur og við þurftum bara sjálf að baka brauðið til að prófa – og það er ljúffengt!

Lesa meira

Morgunverðarbrauð

Þessa uppskrift fékk ég á námskeiði hjá Ingu Kristjánsdóttir: „Jáskorun“ á Facebook í júlí 2023. Námskeiðið var einfalt og frábært og í fyrsta hluta þess kenndi Inga okkur um mikilvægi þess að sleppa kolvetnum í morgunmatnum, borða frekar prótín og fitu í fyrstu máltíð dagsins. Það er mjög einfalt að baka þetta brauð og það er bragðgott, svolítið eins og að borða mjúkt hrökkbrauð.

Lesa meira

Egg og beikon snúðar

Kvöldmatur þarf ekki að vera flókin máltíð og í dag urðu allir saddir heima hjá mér af máltíð sem samanstóð af stafasúpu (pastasúpa úr pakka) og þessum snúðum sem mér datt í hug að gera með þeim hráefnum sem til voru í ísskápnum hjá mér.

Ég nota sömu brauðuppskriftina í allt, sætt og salt brauð. Það eru hin stórgóðu Sunnudagssmábrauð Sollu stirðu, uppskrift sem við Íris höfum notað óteljandi sinnum síðan hún steig sín fyrstu skref í eldhúsinu.

Lesa meira

Bollakökur

Eru skáparnir tómir en þig langar í köku? Strax? Þá býrðu til bollaköku. Það er einfaldast í heimi og þar að auki gef ég hér uppskriftir að hollum bollakökum, glúten- og sykurlausum.

Ég set hér uppskrift að uppáhaldskökunni minni, trönuberja-sítrónu-bollaköku. En svo að sjálfsögðu líka súkkulaðiköku því allir elska súkkulaði. Eða næstum allir. Uppskriftirnar þýddi ég úr safni Danette May.

Lesa meira

Bananabrauð með kardimommum og kakónibbum

20200509_171633Stundum tek ég tímabil þar sem ég elda mjög mikið upp úr tveimur Nigellu bókum sem ég á. Aðra bókina á ég á íslensku og hún heitir „Nigella með hraði, spennandi, fljótlegt og gómsætt“ – ég staðfesti að hún stendur undir öllum þremur lýsingarorðunum. Allt í þessari bók er gómsætt en gallinn við að nota hana of mikið er að það er rjómi og áfengi í nánast öllum umsóknunum og í hversdagsleikanum verður það hreinlega of mikið. Þessi bók var gefin út af Bjarti en virðist vera uppseld.

Hina bókina keypti ég nýlega þegar ég var í fríi á Flórída og datt inn á tilboðsborð í Barnes&Nobles. Hún heitir „Simply Nigella“ og þar fer hvorki mikið fyrir rjóma né áfengi heldur eru uppskriftirnar mjög í anda heilsukúrs Danette May sem ég hef fylgst með undanfarna mánuði – einfaldur matur, ríkur af prótínum og heilsueflandi kryddum. Vissir þú til dæmis að það er til uppskrift að rækjunúðlum með kanil? Ég hef reyndar ekki þorað að prófa þann rétt. En mér leist vel á bananabrauðið og tókst í fyrsta sinn að gera fallegt, mjúkt og djúsi brauð. Ég mæli með uppskriftinni sem ég þýði hér en vara við kardimommunum. Alls ekki nota dropa! Og magnið sem Nigella gefur upp er mikið og yfirtekur annað bragð í brauðinu, svo ef þú hefur ekki smekk fyrir kardimommur þá skaltu minnka kryddið eða sleppa því.

Lesa meira

Hrökkbrauð

  • hrokkbraud4 dl hveiti
  • 1 dl haframjöl
  • 1 dl graskersfræ
  • 1 dl sesamfræ
  • 1 dl hörfræ
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk salt (maldon)
  • 1 dl olía
  • 2 dl vatn

Hitið ofninn í 200°C.

Blandið öllum hráefnum saman og skiptið í tvær skálar. ATH að deigið er mjög blautt.

Setjið bökunarpappír í tvær ofnskúffur og dreifið deiginu á plöturnar. Gott er að nota bökunarpappír yfir deiginu á meðan það er flatt út.

Skerið útflatt deigið í bita, gott að nota pizzuhníf.

Stráið maldon salti yfir og bakið í miðjum ofni í 15-20 mínútur.

 

Dýfa í saumaklúbbinn

dyfaEin af uppáhalds matarbloggsíðunum mínum er Ljúfmeti og lekkerheit. Allt sem ég hef prófað þar er gott og yfirleitt passa innihaldslýsingarnar við það sem til er í skápunum hjá mér. Þar fann ég til dæmis þessa dásamlegu, og ofureinföldu uppskrift að heitri dýfu með fetaosti og tómötum. Ljúffengt, en ég þarf að passa mig að missa mig ekki í tabasco sósunni.

Grillað naanbrauð

naanFyrir langa löngu klippti ég sáraeinfalda uppskrift að grilluðu naanbrauði úr dagblaði. Ég hef oft dáðst að systrum mínum þegar þær hafa búið til þetta flotta brauð með matnum. En ég hef aldrei nennt að prófa þetta sjálf – fyrr en í dag! Gamla úrklippan reyndist frábærlega. Ég átti reyndar ekki heilhveiti og notaði því meira af hvítu hveiti, það var ljómandi gott. Ég skipti líka AB-mjólkinni út fyrir venjulega súrmjólk sem þykir bragðbetri á mínu heimili. Lesa meira

Morgungrautur

morgungrauturNýlega benti Facebook vinur minn á uppskrift að hafragraut sem ekki er soðinn heldur látinn liggja í ísskáp yfir nótt og er þá tilbúinn í morgunmatinn. Þar sem ég get ekki borðað mauksoðinn hafragraut en finnst mjög gott að borða grófari hafra á morgnana varð ég að prófa þetta. Synirnir voru yfir sig hrifnir og nú er öll fjölskyldan á kafi í þessari hollustu. Ég gef hér grófa uppskrift að mínu tilbrigði, prófið ykkur svo áfram með leiðbeiningum í tenglinum hér að ofan. Lesa meira

Hvítlauksbrauð

garlicbreadStundum er eins og enginn á heimilinu borði brauð, það safnast upp í brauðkassanum og verður of gamalt til að nokkur maður hafi lyst á því. Hvað er þá til ráða? Jú, að gera hvítlauksbrauð sem allir elska. Það er frábært að nýta gamalt brauð til að lífga upp á hversdagslegar máltíðir eins og pasta eða súpu. Og ef maður grillar það fær brauðið ómótstæðilega skorpu.  Lesa meira

Sumarleyfis snúðar

bullarNú er ég loksins að komast í sumarleyfis stemningu, það tók ansi langan tíma þetta árið. Í dag notuðum við strákarnir frítímann til að baka snúða. Deigið var þríhnoðað því allir urðu að fá að taka þátt. Það er gott fyrir gerdeig að hnoða það vel því þannig er líklegra að gerinn vinni vel og brauðið verði mjúkt og gott. Við notuðum uppskriftina að smábrauðum Sollu stirðu, það er uppskrift sem bregst aldrei. Svo fylltum við eina lengju með kanilsykri og marsípan og aðra með sykri, salthnetum og súkkulaðirúsínum sem fundust uppi í skáp. Það voru svo snúðar í kvöldmatinn. Lesa meira

Hafragrautur Brynhildar

hafragrauturÉg borða ekki hafragraut. Sem smábarn kúgaðist ég af slepjulegri áferðinni og hef aldrei geta tekið þennan klassíska morgunmat í sátt. En þegar ég bjó í Ameríku kynntist ég ýmsum tilbrigðum við hafragraut: grófari hafrar og skálin fyllt með ávöxtum og hnetum. Á búskaparárum mínum á Gates Avenue í Montclair lærði ég síðan að elda þennan bragðgóða og matarmikla graut – fullkomin byrjun á góðum degi. Lesa meira

Franskt eggjabrauð (French Toast)

frenchtoastÍ gær uppgötvuðu strákarnir mínir French Toast. Ísskápurinn var svo tómur að við þurftum að labba út í Sunnubúðina í Lönguhlíð og kaupa egg svo hægt væri að setja saman ásættanlegan kvöldmat. Svo var French Toast í matinn. Í gær steikti ég reyndar bara brauð fyrir mig því ég hélt að strákunum myndi ekki líka þetta. En þeir vildu endilega smakka og linntu svo ekki látum fyrr en ég samþykkti að gera „franskt eggjabrauð“ með steiktu ýsunni í kvöld. Skrýtið meðlæti með fiski en rann ljúflega niður.

Að sjálfsögðu er best að borða franska eggjabrauðið í brunch með góðum vinum. Lesa meira

Bollabrauð

bollabraudÍ kvöld fann ég stórkostlega uppskrift! Þetta er svo stórkostleg uppskrift að brauði að fimm mínútum eftir að ég fann hana var ég búin að smakka ilmandi bollabrauðið. Ég er ekki að grínast, ég var búin að bjóða Silla volgt brauð með osti og sultu. Honum leist fyrst ekkert á þetta: „Þú varst bara að hræra eitthvað í bolla!“ En þegar hann var búinn að smakka þá var hann fljótur að gleypa í sig tvær þykkar sneiðar.

Það var Marta María í Smartlandi á mbl.is sem benti á fljótlega brauðið hennar Kristu. Hún notar skringilegt mjöl vegna glúten óþols en ég á ekkert slíkt í skápunum hjá mér. Ég átti hins vegar spelt og notaði það í staðinn.  Lesa meira

Crépes

crepesPönnukökur eru sætar og crépes eru saltar. Þetta er mín skilgreining. Eftir eina ferð til Parísar áttaði ég mig samt á því að crépes geta verið sætar, mjög sætar. Þegar þær eru fylltar með nutella þá eru þær náttúrulega bara nammi.

Crépes eiga helst að vera aðeins stærri en íslenskar pönnukökur og til þess þarf náttúrulega stærri pönnu. Stærðin skiptir máli svo hægt sé að koma meiri fyllingu inn í þetta létta og ljúffenga brauð. Það er frönsk klassík að fylla kökurnar með nutella og ávöxtum. En crepes eru að mínu mati bestar með djúsí fyllingu á borð við reykt skinka+ostur+vorlaukur eða karrýsteiktum grjónum. Þetta er matur sem hentar þeim sem elska frelsi og tilraunastarfsemi í eldhúsinu. Prófið bara. Lesa meira

Ostastangir

ostastangirHefur þú prófað heimagerðar ostastangir? Það hef ég og hér er uppskriftin frá mömmu.

Þetta kex er í sama flokki og heimagert hafrakex. Þetta er gott úr búðinni en ennþá betra þegar einhver sem maður þekkir hefur nostrað við það.

Berðu kexið fram með góðum drykk, ostum á bakka og kannski góðri salsa. Lesa meira

Smjörkakan hennar Öddu

smjorkakaSem unglingur vann ég heilt sumar við eldhússtörf í sumarbúðunum á Vestmannsvatni. Matráðskona þar var hún Adda sem bakaði m.a. þessa dásamlegu smjörköku.

Það er dálítil fyrirhöfn að gera tertuna því hún er sett saman úr snúðum og tvenns konar fyllingu. En kakan er ljúffeng og fyrihafnarinnar virði. Þetta er svona kaka sem maður getur boðið ömmu með kaffinu. Lesa meira

Svampbotnar

svampbotnEf maður á góða uppskrift að tertubotnum þá má endalaust fikta og föndra með fyllingar og skraut. Svampbotnar eru klassískir og ómissandi í perutertu og rjómatertu. Reyndar hef ég stundum freistast til að nota Godaste sockerkakan í staðinn en það er líklega bara sérviska í mér.

Svampbotnar eru klassískir tertubotnar og má þekja með hvaða góðgæti sem er. Gott er að bleyta í botnunum með ávaxtasafa (t.d. safanum af niðursoðnum ávöxtum, nota svo ávextina í fyllingu og skraut) áður en þeir eru þaktir með rjóma, góðgæti og skrauti. Lesa meira

Amerískar pönnukökur

AmPancakesÞegar ég býð í brunch eru pönnukökurnar ómissandi hluti máltíðarinnar. Ekki þessar íslensku heldur þykkar lummulegar amerískar pönnukökur. Ég hef prófað nokkrar uppskriftir en þessi frá Nigellu er einföldust og því hefur hún fengið að lifa lengst í Binnubúri.

Mér finnst dásamlega gott að borða volga pönnuköku með smjöri og síróp, steiktu eggi og beikon. Þetta er náttúrulega ekki hollt en maður á ekki að hugsa um það á fallegum sunnudagsmorgni með fjölskyldunni.  Lesa meira

Pönnukökur

ponnukokuÞað er eitthvað sérlega heimilislegt við pönnukökur. Að standa við eldavélina og steikja og steikja, bægja fjölskyldunni frá svo að allt verði ekki búið þegar maður sjálfur getur sest niður til að fá sér eina upprúllaða með miklum sykri.

Þótt það sé dálítil vinna að baka pönnukökur þá er það mjög þakklátt því að allir elska þær. Það er mín reynsla að upprúllaðar pönnukökur með sykri eru jafnvinsælar á veisluborðinu og frönsk súkkulaðikaka. Ég held reyndar að eftir kreppu hafi pönnukakan fengið aftur sinn sess í veislum landsmanna. Hún er þjóðleg og hönnuðir hafa hampað henni með nútíma útgáfum af pönnukökupönnunni. Lesa meira

Vöfflur

vafflaÞað er nauðsynlegt að eiga góða uppskrift að vöfflum, maður bara bakar þær ekki úr tilbúnu deigi. Hér er uppskriftin hennar mömmu, með súrmjólk í. Mér finnst alltaf vera gæðamerki á uppskriftum þegar það er súrmjólk í þeim, til dæmis er súrmjólk hágæða morgunmatur.  Lesa meira

Banitsa

banitsaBanitsa er búlgarskur ostaréttur. Búlgarir nota filo deig til að útbúa þennan rétt og ýmsa fleiri dásamlega rétti, salta og sæta. Hér er fyllingin ostur og egg og útkoman er góður smáréttur eða matarmikið meðlæti.

Ég gaf Írisi Evrópuferð í fermingargjöf og ferðin hófst í Búlgaríu. Þar lærðum við að banitsa er fyrir Búlgörum svona eins og pylsa í brauði er Íslendingum, góð að grípa í á ferð um bæinn. Lesa meira

Matarmikil parmesan ostakaka

parmesan-cakeÞetta er sölt ostakaka sem gott er að bera á borð í saumaklúbbi eða annarri slíkri smá-samkundu. Ostakakan myndi svo sem sóma sér vel á veisluborðinu líka.

Ég smakkaði þessa ostaköku fyrst í litlu boði sem Maughn Gregory, uppáhalds kennarinn minn, hélt fyrir bekkinn minn í Montclair þegar ég var að ljúka námstíma mínum þar. Maughn var reyndar ekki mikill kokkur sjálfur en maðurinn hans, Troy, hafði eldað kökuna fyrir okkur. Lesa meira

Fyllt snittubrauð með tómötum og skinku

baguetteÉg er ekki dugleg að búa til brauðrétti en mér finnst þeir æðislega góðir og mér finnst líka að ég ætti að búa þá til oftar. Hér er einföld og skemmtileg uppskrift sem auðvelt er að laga að eigin smekk. Það er hægt að fá ýmiss konar snittubrauð í bakaríunum og skemmtileg væri að prófa ólíkar gerðir af brauði í þennan rétt. Fullkomið í saumaklúbbinn. Lesa meira