Pavlova

Þegar ég var stelpa ætlaði ég að verða ballettdansari þegar ég yrði stór. Ég stóð á tám heilu og hálfu dagana, sannfærð um að það væri leiðin inn í Kirov ballettinn. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að ég elska Pavlovu: Dísæta, mjúka og dásamlega marengsköku. Svolítið langsótt, en ég stóðst ekki mátið að henda fram þessari tengingu af því að tertan heitir í höfuðið á ballerínunni Önnu Pavlovu.

Mér tekst alltaf betur að baka pavlovu en venjulegan marengs. Uppskriftin sem hér er gefin kemur að grunni til frá henni Dröfn í Eldhússögum. En ég er búin að minnka uppskriftina svo tertan setji ekki vísitölufjölskyldu á hliðina í sykuráti. Stóra tertan hennar Drafnar er frábær í stórar veislur – en þá þarftu líka að eiga stórt fat undir herlegheitin.

Lesa meira

Auglýsingar

Skyrterta með súkkulaði og berjum

SkyrtertaÍ dag átti ég margar dósir af vanilluskyri sem voru komnar á síðasta söludag. Drengirnir hafa ekki lyst á svona skyri og eiginmaðurinn borðar ekki skyrtertur – hvað er þá til ráða? Eftir smá rannsókn á skyrtertum á netinu ákvað ég að búa til mína eigin uppskrift og hafa hana þannig að strákarnir hlytu að horfa framhjá þeirri staðreynd að þetta væri skyrterta. Á mínu heimili getur það gerst ef maður setur nóg af súkkulaði og berjum út í það sem á að borða. Grunninn fékk ég hjá Evu Laufeyju Kjaran en ég tók út allt sem mig grunaði að gæta fælt strákana frá. Afraksturinn var sannkölluð veisluterta og við nutum hennar í tilefni sjómannadagsins. Lesa meira

Þúsund ára kaka

thusund-ara-kakaÞúsund ára kaka er formkaka með kurli ofan á. Hún er alveg sérlega ljúffeng. Þetta er gömul uppskrift úr bókunum hennar mömmu minnar.

Það má gera tilraunir með skrautið ofan á kökunni sem bragðbætir hana. Í uppskriftinni eru möndlur og súkkulaði tilgreint en það má bæta við þetta kókos, hnetum, söxuðum döðlum eða öðru sem ykkur þykir passa vel með góðri köku. Verði ykkur að góðu.

Þúsund ára kaka

  • 200 gr sykur
  • 200 gr smjör
  • 4 egg
  • 250 gr hveiti
  • ½ tsk hjartarsalt
  • vanilludropar að eigin smekk
  • Möndlur og súkkulaði til að strá yfir kökuna, saxað mjög smátt

Hitið ofninn í 160°C – ekki blástur.

Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst. Bætið eggjum út í, einu í einu og hrærið vel á milli. Bætið hveiti, hjartarsalti og vanilludropum út í og hrærið saman.

Setjið deigið í hringmót með lausum botni og stráið möndlunum og súkkulaðinu yfir. Bakið í 40 mínútur.

Látið kökuna kólna aðeins áður en þið takið hana úr forminu.

Karamellukaka

karamellukakaKaramellukakan hennar mömmu Helgu dregur nafn sitt af ljúffengri karamellu sem skreytir þessa þéttu og góðu köku. Karmellan gefur kökunni sætan keim og mjúka áferð. Þetta er gómsæt kaka og í miklu uppáhaldi hjá öllum börnum sem ég þekki. Hún er samt svo sæt að það er best að borða hana bara spari. Lesa meira

Mjúk piparkaka (kryddkaka)

kryddkakaÉg á mjög góða vinkonu sem heitir Berit og er gamli sænskukennarinn minn. Við kynntumst þegar ég flutti, 7 ára gömul, með fjölskyldunni til Svíþjóðar og Berit kenndi mér þar sænsku. Ég fór í tíma til hennar fjórum sinnum í viku og leiddist fimmtudagar ógurlega, því þá var ekki tími hjá Berit. Við höfum skrifast á í 35 ár og heimsótt hvor aðra nokkrum sinnum. Á fullorðinsárum fór ég að fá uppskriftir frá þessari góðu vinkonu minni og þær eru í sérflokki hjá mér. Maturinn hennar Berit er hollur, fallegur og bragðið er alltaf góð tilbreyting frá því sem er oftast í gangi hjá mér. Ég myndi líkja kryddheiminum hennar við Norður-Afrískan kryddheim því hún notar oft kanil og önnur keimlík krydd. Lesa meira

Marmarakaka

marmarakakaÞað bakar enginn jafn góða marmaraköku og mamma mín. Hér er uppskriftin hennar. Kakan er einföld í bakstri og hefur þetta fallega, afgerandi mynstur. Hún er í miklu uppáhaldi hjá börnunum mínum og dásamleg í hversdagslegum kaffitíma. Lesa meira

Gulrótarkaka

gulrotarkakaGulrótarkaka er holl og góð. Dísæt en allar þessar gulrætur vega á móti sykrinum. Það má nota ýmiss konar krem ofan á og ég set hvorki meira né minna en þrjár uppskriftir að kreminu hér að neðan. Það fer eftir skapinu hjá mér hvort ég vil hafa kremið súrara eða sætara og ég vel samkvæmt því.

Gulrótarkakan er glæsileg terta sem hentar við alls konar tækifæri. Lesa meira