Um Binnubúr

Binnubúr er uppskriftabók þar sem ég safna uppáhalds matnum á heimili mínu á Hólagötu 43 í Njarðvík.

BrynhildurHver er ég? Jú, ég er Brynhildur Sigurðardóttir og bjó um árabil í Eskihlíð í Reykjavík en haustið 2014 fundum við draumahúsið í Njarðvík og fluttum þangað. Við erum ég og maðurinn minn, hann Siguringi og synir okkar tveir, þeir Sólon og Kári. Okkur finnst gott að vera heima, hafa kósýkvöld um helgar og reyna að borða hollan mat flest kvöld vikunnar. Við dettum samt oftar en ekki í súkkulaðisukk.

Í Binnubúri er matur sem er mildur og góður og fellur því öllum fjölskyldumeðlimum vel í geð. Auk þess eru þetta uppskriftir sem eru tiltölulega auðveldar í framkvæmd og því henta þær flestar í dagsins önn. Einstöku köku uppskrift er kannski undantekning frá þessu en þá er það réttlætanlegt af fagurfræðilegum ástæðum.

Þegar ég nota bakaraofninn þá er hann alltaf á blæstri nema annað sé tekið fram.

Stundum eru mælieiningar ekki mjög nákvæmar. Þetta stafar af kæruleysi mínu og vandræðum með að fylgja uppskriftum almennilega. Ég geri því ráð fyrir að nýir lesendur að þessum uppskriftum fari frjálslega með þær og ef þið lendið í vandræðum þá hringið þið bara í mig, síminn er 820 8592.

Uppskriftirnar koma úr öllum áttum og er heimilda getið þar sem það er mögulegt. Ég vil sérstaklega þakka Fréttablaðinu fyrir að hafa í gegnum tíðina birt góðar uppskriftir frá venjulegu fólki.

Allra bestu þakkir fær Siguringi sem hefur smakkað alla þessa rétti og gæðaprófað.

Verði ykkur að góðu!

Brynhildur í Binnubúri

Auglýsingar